top of page
Anvendelser_skoleventilation_ventas_low1.jpg

Börnin okkar eiga skilið hreint loft.

Loftgæði 2.0 er átak í að hjálpa skólum að búa til öruggara, heilbrigðara umhverfi fyrir nám og leik.

Main-03.jpg

LOFTGÆÐI INNANDYRA

Gæði innilofts byggja auðvitað á gæðum útilofts en svo eru ótal margir aðrir þættir innandyra sem geta haft áhrif á gæði inniloftsins. Fyrst ber að nefna hversu miklu útilofti er hleypt/blásið inn. Við tölum um náttúrulega loftræsingu með því að opna hurðir og glugga sem takmarkast af því hvernig veðrið utandyra er. Á köldum eða vindasömum dögum er mjög oft ekki hægt að nota sér slíka loftræsingu og því verðum við að reiða okkur á vélræna loftræsingu til að tryggja nægjanlegt magn af fersku lofti.

 

Svo eru önnur atriði sem geta haft áhrif á gæði inniloftsins sem skipta verulegu máli. Veikt fólk ber með sér vírusa og bakteríur og dreifir þeim um umhverfi sitt með snertingu, hóstum og hnerrum. Á Covid tímanum var talað um 2 metra regluna en nú liggur fyrir að loftborin smit geta borist tugi metra og geta jafnvel svifið um í andrúmsloftinu innandyra dögum saman. Nýjustu rannsóknir sýna að lágt CO2 gildi í innilofti stuðlar enn fremur að því að bakteríur lifa lengur svífandi um í loftinu sem við svo öndum að okkur.

 

Svo eru það rokgjörn lífræn efnasambönd (VOC), húðflögur, rykagnir hvers konar, örverur, mygla og frjókorn sem geta haft áhrif á loftgæðin.

WHO.png

Samkvæmt rannsókn WHO eru 28% heilablóðfalla,

18% blóðtappa í hjarta og 17% allra tilfella lungnakrabbameins rakin til mengaðs innilofts. 

Börn og eldri borgarar eru í mestri áhættu.

Börn yngri en 5 ára eru viðkvæmust.

Í nýrri skýrslu: “Kortlagning á innilofti í skólum og leikskólum á Íslandi” sem unnin var af verkfræðistofunni Cowi fyrir Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið kom eftirfarandi fram:

“Alþjóðlegar rannsóknir hafa sýnt fram á að loft innandyra getur verið allt að 2-5x mengaðra og stundum meira en 100 sinnum mengaðra en loft utandyra.”

Við þetta má bæta að við sem búum á norðurhveli jarðar eyðum að jafnaði 90% af tíma okkar innandyra!

 

Þá liggur í augum uppi að það er ekki nóg að mæla loftgæði á örfáum stöðum utandyra!

Niðurstaða: Hér áður voru mikil vandkvæði á að mæla loftgæði innandyra. Þá þurfti gjarnan að panta sérfræðing með sérstök rándýr mælitæki sem sett voru á einstaka staði innanhúss í sólarhring, viku eða kannski tvær. Síðan skrifaði sérfræðingurinn skýrslu um ástandið á loftgæðunum á þessum takmarkaða tíma. Um restina af árinu var ekki vitað og því gaf þetta takmarkaða mynd af því hvernig ástandið væri. 

Screenshot 2024-12-13 122425.png

Í dag eru aðrir tímar og þökk sé fyrirtækjum eins og Kaiterra og fleirum er nú mögulegt að mæla loftgæði innandyra á auðveldan máta. Þannig er hægt að vita fullkomlega hvernig loftgæðin eru alla daga ársins og jafnframt er hægt að bregðast við strax ef tilefni er til. Mikilvægi þessara gagna og hvað hægt er að gera með þau skiptir öllu máli í úrlausnum og/eða til að bregðast strax við ef loftgæði versna. 

LOFTGÆÐI 2.0 INNANDYRA

Húsbyggendur, húseigendur og forráðamenn bygginga eiga að fara eftir byggingarreglugerð og gildir það jafnt varðandi bruna, einangrun, vatns- og raflagnir svo fátt eitt sé nefnt. Jafnframt stendur mjög skýrum stöfum í grein 10.2.6. í byggingarreglugerðinni hvernig haga skuli loftræsingu í skólum og sambærilegum byggingum. Ef ekki er farið eftir þessum leiðbeiningum þá er verið að brjóta ákvæði byggingareglugerðarinnar!

Skoðum hvað Byggingareglugerðin segir: 

10.2.6. Loftræsing í skólum og sambærilegum byggingum

 

Leiðbeiningar

 

Grein 10.2.6 í byggingarreglugerð

 

1 Vegna framangreindra ákvæða byggingarreglugerðar um lámark loftmagns, er vakin athygli á að reglugerðin gerir að auki kröfu um mesta leyfilegt magn CO2 í innilofti sé uppfyllt, samanber 10.2.8 gr.: „Tryggt skal að CO2 magn í innilofti verði ekki meira að jafnaði en 0,08% CO2 (800 ppm) og fari ekki til skamms tíma yfir 0,1% CO2 (1.000 ppm).“

 

Hvortveggja verður að vera uppfyllt.

 

2 Við hönnun vélrænna loftræsikerfa skal stuðst við íslenska staðla, samanber 1.2.2. gr. byggingarreglugerðar. Fyrir hendi er nokkur fjöldi íslenskra staðla sem fjalla um eða tengjast kröfum til loftgæða, hita- og rakastigs innan mannvirkja.

Vegna hönnunar loftræsikerfa, er bent á staðalinn: ÍST EN 16798-1:2019, orkunýting í byggingum – hluti 1. Í þessum staðli er lýst hvernig breytur eru notaðar við hönnun og mat á orkunýtingu bygginga þar sem tekið er mið af loftgæðum, varmaumhverfi, lýsingu og hljóðtækni innanhúss – M1-6.

 

Jafnframt er bent á staðalinn ÍST EN 16798-3:2017, loftræsing bygginga – fyrir annað húsnæði en íbúðarhúsnæði, sem leiðbeinir hönnuðum við að útfæra lausnir fyrir nothæfiskröfur loftræsikerfa og loftræsingar rýma (M5-1, M5-4).

Nota skal viðmið sem koma fram í töflu 1 í staðlinum en þar segir að nota skuli viðmiðunarflokk II við nýjar byggingar og við endurnýjun á húsnæði. Jafnframt er bent á staðallinn ÍST EN 13779: 2007. 

Hlekkur hér

Í ljósi þess er að framan greinir er sérstakt að lesa yfir fyrrnefnda skýrslu Cowi “Kortlagning á innilofti í skólum og leikskólum á Íslandi” þar sem fram kemur að: 

 

“ Margar af skólabyggingunum í þessari kortlagningu eru áratuga gamlar, byggðar á tíma þegar loftræsing og loftgæði innandyra voru ekki í forgangi. Eins og sjá má á mynd 18, þá eru einungis 6 byggingar með vélrænt loftræsikerfi í allri byggingunni og 5 byggingar með kerfi í hluta byggingarinnar. Í öllum þessum byggingum var einnig vélrænt útsogskerfi frá baðherbergjum og eldhúsi. Í 21 byggingum var einungis vélrænt útsog af baðherbergjum og eldhúsi. Í 19 byggingum var ekki tekið fram hvernig eða hvort loftræsikerfi væri til staðar.”  


Það liggur því fyrir að mikið verk er að vinna, á komandi mánuðum og árum við að koma loftgæðum í skólabyggingum á Íslandi í viðunandi ástand!

Hreint inniloft

Hreint loft er grunnkrafa. Góð loftgæði er nauðsynlegur þáttur í heilbrigðu lífi og vellíðan fólks. Hvort heldur sem er á heimilum, skrifstofum, skólum, dagvistunarheimilum, opinberum byggingum, heilsugæslustöðvum eða öðrum einka- og opinberum byggingum þar sem fólk eyðir stórum hluta ævinnar. Hættuleg efni sem losna frá byggingarefnum og búnaði innandyra eða vegna athafna manna innandyra, leiða til margvíslegra heilsufarsvandamála og geta jafnvel verið banvæn (VOC).

 

Þá er að rifja upp að fólk á norðurhveli jarðar eyðir að jafnaði 90% af tíma sínum innandyra!

 

Frétt hjá RUV 9. ágúst 2023 - Viðtal við Magnús Þór Jónsson, formann Kennarasambands Íslands:

“Kennarasambandið hefur lengi talað fyrir bættum starfs-aðstæðum kennara, þær séu mikilvæg breyta í fjölda veikindadaga. Mygla og raki í skólahúsnæði hafi haft alvarleg áhrif á líðan starfsfólks. Þá séu einnig of stórir hópar „ Stórar hópastærðir þýðir meira álag á kennara og er eitthvað sem við teljum að hafi áhrif á líðan fólks sem birtist í auknum veikindum.“ Magnús segir að hér á landi sjáist mjög stórar hópastærðir á öllum skólastigum, mun fleiri nemendur á hvern kennara en í alþjóðlegum samanburði. Mikilvægt sé að skoða allar þessar breytur til að finna leiðir til að bæta úr aðstæðum.”

Ástæða viðtalsins var: 

“Ákvörðun Kópavogsbæjar um að hækka leikskólagjöld þeirra sem ekki geta takmarkað dvöl barna við sex klukkustundir á dag hefur vakið blendin viðbrögð. Bærinn segist vera í pattstöðu hvað varðar aðstæður starfsfólks á leikskólum en líkt og fram hefur komið þá eru 39 veikindadagar á ári á hvert stöðugildi í skammtímaveikindum hjá starfsfólki á leikskólum í Kópavogi. Þessi veikindadagar miða við allt árið, 365 daga.”

Screenshot 2025-01-20 103709.png

Við sjáum í fréttum að sveitarfélög um allt land eru að fást við erfiðleika vegna húsnæðis, fjölda nemenda, skort á faglærðu fólki, takmörkuðu fjármagni og fl. Kostnaður vegna fjölda veikindadaga sem dæmi, er himinhár og til mikils að vinna, að fækka þeim til að bæta reksturinn. Vellíðan og bætt heilsa kennara, annars starfsfólks og nemenda verður tryggð.

Erlendar rannsóknir sýna bein tengsl á milli lélegra loftgæða og veikinda starfsfólks. 

Launakostnaður er stærsti kostnaðarliður í rekstri skóla og allflestra fyrirtækja. Rannsóknir frá Harvard sýna að hækkun CO2 um 400 ppm umfram viðurkennd gildi (800 ppm) kosta atvinnurekendur $6.500 á ári eða um tæpar 900.000 kr. á hvern starfsmann! 

Starfsfólki skóla er ekki ætlað að skila öðrum hagnaði en vel menntuðum og ánægðum  nemendum. Engu að síður gilda sömu viðmið og um annað starfandi fólk og þannig kemur það eðlilega niður á starfsgetu þeirra ef viðunandi starfsaðstæður eru ekki fyrir hendi. 

Bent er á skýrslu sem unnin var í Danmörku, Branchevejledning for indeklima i skoler.

 

Vinna við þessar leiðbeiningar um inniloft í skólum var unnin af hópi aðila í byggingageiranum undir stjórn Dansk Byggeri. Þungamiðja verkefnisins voru áskoranir í tengslum við gæði innilofts í skólum.​

 

Þar er bent á að rannsóknir sýni bein tengsl milli lélegra loftgæða og námsárangurs. Léleg loftgæði geta dregið úr námsárangri um allt að 10%. Það þýðir að nemandi sem er 10 ár í skóla tapar hlutfallslega einu ári í námi og kemur því með afrakstur 9 ára náms út í samfélagið eftir þessi 10 ár!

Lauslega úttekt er að finna hér.

Sæktu Branchevejledning for indeklima i skoler - hér.

Screenshot 2024-12-13 123716.png

Samkvæmt rannsókn í BNA sem gerð var fyrir COVID-19 þá misstu um 16% bandarískra nemenda (25% til 50% í sumum borgum) að minnsta kosti 10% af skólaárinu vegna veikinda.

Svipuð niðurstaða og kemur fram í Branchevejledning for indeklima i skoler.

RANNSÓKNIR Í ÍSLENSKUM SKÓLUM

Styrkur CO2 í lofti

Ein af mikilvægu breytunum varðandi loftgæði innandyra er styrkur CO2 en há gildi CO2 eru hættuleg. Við viljum minna á það sem kom fram hér að framan um viðmið í Byggingareglugerðinni varðandi inniloft í skólum: 

„Tryggt skal að CO2 magn í innilofti verði ekki meira að jafnaði en 0,08% CO2 (800 ppm) og fari ekki til skamms tíma yfir 0,1% CO2 (1.000 ppm).

Bent skal á að í fyrrnefndri skýrslu, Kortlagning á innilofti í skólum og leikskólum á Íslandi kom eftirfarandi fram:

 

Samkvæmt niðurstöðum mælinga er meðal- og hámarksstyrkur koltvísýrings í lofti í mældum rýmum í skóla- og leikskólum, í þessari úttekt, í lang flestum tilfellum yfir viðmiðunarmörkum í núgildandi byggingarreglugerð. Í lang flestum skólum er ekkert vélrænt loftskiptakerfi til tryggja fullnægjandi loftskipti í rýmum, en erfitt getur verið að ná fullnægjandi loftskiptum með útloftun um glugga, sérstaklega þegar nemendafjöldi er orðin mikill í hverju rými.”

 

Og þetta:

 

Fjöldi rannsókna sem hafa verið framkvæmdar hér á Íslandi hafa sýnt að CO2 styrkurinn í skólastofum er of hár. Lagnafélag Íslands hélt ráðstefnu árið 1997 um loftgæði í skólum, þar sem niðurstöður mælinga sem Jónína Valsdóttir framkvæmdi í sex skólum í Akureyri og Dalvík voru kynntar. Meðalstyrkur CO2 í skólastofum var 1373 ppm."

Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis birti skýrslu árið 2002 um loftgæðamælingar í skólum og leikskólum á Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ, en rannsókn og úttekt var framkvæmd af Árna Davíðssyni. Meðal CO2-styrkur í 16 kennslustofum var 1704 ppm. Lægsta mældi gildi var 552 ppm og hæsta 4053 ppm. Í leikskólum var CO2 að meðaltali 1254 ppm (620-3212 ppm).

 

Árið 2008 framkvæmdi Vanda Úlfrún Liv Hellsing rann-sókn þar sem hún loftgæðamældi 74 skólastofur í 15 skólum í Reykjavík. Aldur skólanna var mismunandi og margir skólar reistir fyrir tíma núverandi byggingar-reglugerðar. Vanda loftgæðamældi 4-7 stofur í hverjum skóla og sátu að jafnaði 22-32 nemendur í hverri stofu, oft mikið fleiri nemendur en skólastofan var upprunalega hönnuð fyrir. CO2-styrkur í skólastofunum mældist á bilinu 621–2353 ppm, með meðalstyrk um 1508 ppm

Screenshot 2025-01-20 150759.png

Í 13 af 15 skólum mældist CO2-styrkurinn yfir viðmiðunarmörkum, eða 1000 ppm, og í öllum nema einum fór hann yfir 800 ppm að jafnaði.”

Niðurstaða: Frá árinu 1997 (28 ár) hafa verið gerðar fjölmargar skyndirannsóknir á loftgæðum í skólum á Íslandi en síðan er lítið sem ekkert gert til að bæta ástandið. Greinilegt er að ákvarðanatakar á þessu tímabili hafa litið framhjá þessum niðurstöðum miðað við fyrrnefnda skýrslu "Kortlagning á innilofti í skólum og leikskólum á Íslandi". Í niðurstöðum sem eru bæði frá BNA og frá The KIDS í Ástralíu segir:

 

“Þó skammtíma útsetning fyrir CO2 í háum skömmtum geti verið banvæn, leiðir minni skammtur og langvarandi útsetning til skertrar vitrænnar virkni og fjölda annarra hugsanlegra skaðlegra áhrifa á lungu, nýru og bein.”

Lögum þetta! 

bottom of page